Arsenal þurfti sigur gegn Porto í gær til að komast áfram, eftir 1-0 tap í Portúgal, og tókst að jafna einvígið þegar Leandro Trossard skoraði eftir snilldarsendingu frá Martin Ödegaard.
Það reyndist hins vegar eina markið í venjulegum leiktíma og ekkert var skorað í framlengingu, svo að gripið var til vítaspyrnukeppni.
Þar reyndist David Raya hetja Arsenal en hann varði tvær spyrnur á meðan að félagar hans nýttu allar sínar spyrnur.
Barcelona sló út Napoli með því að vinna seinni leik liðanna 3-1, og einvígið samtals 4-2.
Barcelona komst í 2-0 og átti Raphinha stóran þátt í því. Fyrst lagði hann boltann út í teiginn á Fermín sem skoraði á 15. mínútu. Tveimur mínútum síðar bætti svo Joao Cancelo við marki eftir stangarskot Raphinha sem var reyndar enn að jafna sig á því að hafa ekki skorað, þegar boltinn lá í netinu.
Amir Rrahmani hélt Napoli inni í einvíginu með marki á 30. mínútu en Robert Lewandowski gerði út um það með marki á 83. mínútu, eftir að Börsungar sundurspiluðu vörn gestanna. Mörkin má sjá hér að ofan.