Þetta staðfesti Pétur við Fótbolta.net í dag. Hann náði því aðeins að leika einn leik með Breiðabliki í Bestu deildinni, eftir að hafa komið frá Gróttu haustið 2021.
Meiðsli hafa nefnilega sett risastórt strik í reikninginn á ferli Péturs, sem er 28 ára gamall. Hann kom til Breiðabliks eftir að hafa raðað inn 23 mörkum í Lengjudeildinni 2021, en var rétt búinn að æfa í viku með Blikum þegar hann sleit krossband í hné, í þriðja sinn á ferlinum.
Eftir að hafa jafnað sig af þeim meiðslum fór Pétur að láni til Gróttu síðasta sumar og skoraði sex mörk í níu leikjum í Lengjudeildinni, áður en hann reif liðþófa í hnénu og þurfti enn og aftur að fara undir hnífinn.
Pétur hefur nú rift samningi við Breiðablik og íhugar að leggja jafnvel takkaskóna á hilluna.
„Ég má í raun gera allt á æfingum, var byrjaður í sendingaræfingum og aðeins að fikra mig áfram. Ég ákvað í síðustu viku að stíga aðeins frá þessu þannig ég og Breiðablik ákváðum að rifta. Þetta var alltaf að fara vera langsótt hjá mér í Breiðabliki í sumar þannig mér fannst best bara að stíga aðeins frá þessu og sjá til hvað ég vil gera í sumar. Hvort sem það verði að halda áfram einhvers staðar eða bara segja þetta gott,“ segir Pétur við Fótbolta.net.