Gæsluvarðhald sem þeir hafa sætt verður dregið frá refsingunni. Þá verða ýmsir munir gerðir upptækir líkt og skotvopn og fíkniefni.
Þeir Sindri og Ísidór voru sakfelldir fyrir vopnalagabrot sem þeir játuðu að hluta en sýknaðir af ákæru um skipulagningu hryðjuverka og hlutdeild í því.
Verjendur mannanna sögðu í viðtali við fréttastofu að dómuppsögu lokinni að ljóst væri að þeir hefðu verið sýknaðir af ákærum sem vörðuðu hryðjuverk.
Hoppað frá ákæruvaldinu og milli dómstóla
Sakborningarnir tveir voru handteknir þann 21. september 2022 í umfangsmiklum aðgerðum sérsveitar Ríkislögreglustjóra og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi og Mosfellsbæ.
Síðan hefur málið verið á miklu flakki í dómskerfinu. Fyrst voru gæsluvarðhaldsúrskurði á hendur mönnunum til mikillar umræðu, en þeir sátu í ellefu viku í gæsluvarðhaldi.
Þeir voru fyrst ákærðir í október 2022, en þeirri ákæru var vísað frá dómi í febrúar ári síðar. Ástæðan var sú að ákæran þótti haldin slíkum ágöllum að Sindri og Ísidór myndu eiga erfitt með að halda uppi vörnum.
Í júní á síðasta ári ákærði embætti héraðssaksóknara þá aftur, en sú ákæra var talsvert lengri og ítarlegri. Daða Kristjánsson, dómari í Héraðsdómi Reykjavíkur var þó á því að annmarkarnir væru enn til staðar og vísaði málinu aftur frá dómi, en Landsréttur var ekki sammála því og vísaði málinu aftur til Héraðsdóms.
Í kjölfarið féllst Landsréttur á það að Daði væri orðinn vanhæfur til að dæma í málinu þar sem hann hefði með frávísunarúrskurði sínum tekið afstöðu til ákærunnar.
Þrír embættisdómarar dæmdu í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sindri var ákærður fyrir skipulagningu hryðjuverka og Ísidór fyrir aðild að því.
Sannfærður um að komið hafi verið í veg fyrir hryðjuverk
Í aðalmeðferð málsins fór ákæruvaldið meðal annars yfir einkaskilaboð sakborningana, og netvöfrun þeirra. Fyrir liggur að þeir hafi sent skilaboð sín á milli um þekkta hryðjuverkamenn á borð við Anders Behring Breivik, og þá deildu þeir stefnuskrám, svokölluðum manifestóum, einhverra þeirra. Á meðal gagna málsins var stefnuskrá sem Ísidór hafði sjálfur skrifað.
„Ég vil meina að flest þau vandamál sem íslenskt samfélag finnur fyrir séu utanaðkomandi, innflutt,“ sagði Ísidór í aðalmeðferð málsins „Ég er ekki hefðbundinn teiknimyndarasisti, sem mismunar fólki eftir húðlit. Besti vinur minni í æsku var svartur.“
Fulltrúi hjá Europol, verkefnastjóri hóps sem skoðar hryðjuverk hægrisinnaðra öfgamanna, gaf skýrslu fyrir dómi og sagðist sannfærður um að með aðgerðum lögreglu hafi verið komið í veg fyrir hryðjuverk.
„Ég stend hundrað prósent með niðurstöðunni um að íslenska lögreglan kom í veg fyrir hryðjuverk,“
Segja spjallið hafa verið grín
Sakborningarnir tveir og verjendur þeirra voru á öðru máli. Fyrir dómi héldu þeir því fram að um grín hefði verið að ræða. Sindri sagði að þeir væru báðir með svartan húmor og að engin alvara hafi verið á bak við samræður þeirra.
„Ég segi margt og segi alls konar vitleysu. Ég meina ekki allt sem ég segi.“
Fréttin hefur verið uppfærð.