Gauti var á meðal skemmtikrafta á árshátíðinni sem fram fór á Ásvöllum. Atvikið setti svartan blett á fögnuð Hafnfirðinga. Gauti var að syngja á sviðinu þegar atvikið varð. Hann segir manninn hafa reynt að kasta fleiri hlutum í sig áður en hann hafi hitt í höfðuðið á honum. Hann hafi í kjölfarið ákveðið að stoppa lagið og ræða við hann.
„Ég sturlast og stoppa lagið. Ég finn þennan gaur, gríp í hann og spyr hvað hann hafi verið að gera. Það endar með því að ég tók míkrafóninn og bankaði lauslega í hausinn á honum svo það heyrðist í salnum. Það var samt aldrei þannig að ég ætlaði að meiða hann. Það fauk bara í mig,“ segir Gauti í samtali við Vísi.
Hann segist hafa farið aftur upp á svið og klárað lagið. Að loknu giggi hafi Gauti frétt af því að manninum hafi verið vísað út. Þá segir hann erfitt að vita hvernig eigi að bregðast við í slíkum aðstæðum.
„Þar sem maður er með fullt af fólki fyrir framan mann sem maður vill ekki bregðast. Ef þér finnst ég leiðinlegur farðu á klósettið eða út í sígó, ekki reyna að rota mig,“ segir Gauti á léttum nótum.
Gauti grínaðist með það við gesti að það hafi komið upp smá Breiðholt í honum en hann ólst upp í Breiðholti.
„Ég var aðeins að reyna að létta moodið,“ segir Gauti.