Loðnubrestur virtist blasa við þennan veturinn eftir að stefndi í að loðnuleitinni, sem hrundið var af stað í síðustu viku, lyki í dag án árangurs. En núna hefur vaknað smávon eftir þessar nýjustu vendingar, en greint var frá þeim í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þetta er þriðja loðnuleitin sem Hafrannsóknastofnun og útgerðirnar standa fyrir frá áramótum. Tvö skipanna, Ásgrímur Halldórsson og Polar Ammassak, luku leit undan Suðausturlandi í byrjun vikunnar en fundu aðeins litla loðnugöngu.

Vonin var bundin við að þriðja skipið, Heimaey, myndi finna stóra torfu undan Húnaflóa, eins og gerðist í fyrra. Sú von brást og Heimaey, með fiskifræðinga Hafrannsóknastofnunar um borð, fann heldur ekkert við hafísjaðarinn undan Vestfjörðum.
Loðnuleitinni var í raun lokið í morgun og Heimaey á siglingu undan miðjum Breiðafirði áleiðis til heimahafnar þegar Hafrannsókastofnun ákvað síðdegis að snúa skipinu við. Ástæðan er sú að línubátur að veiðum á Víkurál undan Patreksfirði tilkynnti um loðnutorfu og að þorskur þar væri kjaftfullur af loðnu.

Að sögn Birkis Bárðarsonar, fiskifræðings og verkefnisstjóra loðnuleitarinnar, er vonin sú að hér geti verið svokölluð vestanganga á ferðinni, sem gerist af og til. Hann segir vonina þó veika um að þarna sé nægilegt magn af loðnu á ferð til að grænt ljós verði gefið á loðnuveiðar. Það skýrist betur þegar búið verður að mæla loðnugönguna, væntanlega um miðjan dag á morgun.
Loðnan hefur verið næstverðmætasti veiðistofn Íslendinga á eftir þorskinum. Miklir hagsmunir eru í húfi, einkum fyrir þær byggðir þar sem loðnuvinnsla er stunduð. Loðnan gaf í fyrra um sextíu milljarða króna útflutningsverðmæti og um fimmtíu milljarða króna árið áður. Yfirvofandi loðnubrestur yrði því áfall fyrir þjóðarbúið.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: