Þetta kemur fram í gögnum sem lekið var frá einum af þessum hópum en gögnin eru sögð veita einstaka innsýn í starfsemi þessara tölvuþrjóta, sem starfa á vegum fyrirtækja sem opinberar stofnanir ráða til að gera tölvuárásir, samkvæmt frétt Washington Post.
Gögnin, sem koma frá fyrirtæki í Sjanghæ sem heitir i-Soon, voru birt á GitHub í síðustu viku og innihalda myndir, skjöl og skrár yfir samskipti milli fólks. Gögnin spanna átta ára tímabil og þau sýna að opinberar stofnanir í Kína gera samninga við einkafyrirtæki sem ráðið hafa hakkara til að gera tölvuárásir í öðrum ríkjum.
Meðal ríkja sem nefnd eru í gögnunum eru Indland, Hong Kong, Taíland, Suður-Kórea, Bretland, Taívan og Malasía.
Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa einnig lengi kvartað yfir ítrekuðum tölvuárásum kínverskra hakkara gegn stofnunum, rannsóknarstofum og fyrirtækjum, með því markmiði að koma gögnum yfir alls konar upplýsingar og þá sérstaklega upplýsingar um nýja tækni.
Þá hafa Bandaríkjamenn einnig sakað Kínverja um árásir á mikilvæga innvið í Bandaríkjunum.
Sjá einnig: Segja Kínverja hafa hreiðrað um sig innan mikilvægra innviða
Eitt skjal í gögnunum sýnir hvernig hakkarar i-Soon stálum 95,2 gígabætum af gögnum um innflytjendur frá Indlandi og þremur terabætum af gögnum um símtöl, gögn sem sýna hver hringdi í hvern og hvenær, frá Suður-Kóreu.
Sjá einnig: Ástralir fjarlægja 900 öryggismyndavélar frá Kína úr opinberum byggingum
Hakkarar i-Soon hafa einnig gert árásir á samskiptafyrirtæki í Hong Kong, Kasakstan, Malasíu, Mongólíu, Nepal og Taívan.
Gögnin sýna einnig að hakkararnir komu höndum yfir umfangsmikil kortagögn af vegakerfi Taívan. Eyríkis sem ráðamenn í Kína segja að tilheyri þeim, í mjög einföldu máli sagt. Slík gögn gætu reynst mikilvæg komi til innrásar í Taívan, eins og ráðamenn í eyríkinu óttast.
Sjá einnig: Xi vill her í heimsklassa fyrir árið 2027
Gögnin gætu meðal annars hjálpað Kínverjum að gera Taívönum erfitt með að flytja herafla um eyjuna í aðdraganda innrásar. Eftir innrás gætu gögnin hjálpað Kínverjum að flytja herafla um Taívan.
Nota einkafyrirtæki í opinberum tilgangi
Í frétt New York Times um gögnin segir að þau varpi ljósi á það hvernig ráðamenn í Kína og forsvarsmenn njósnastofnanna noti einkafyrirtæki til að framkvæma tölvuárásir á vegum ríkisins, bæði gegn erlendum aðilum og til að vakta Kínverja. Þá sérstaklega minnihlutahópa og veðmálafyrirtæki í Kína og kínverska andhófsmenn á erlendri grundu.
Sérfræðingur hjá Google, sem blaðamaður NYT ræddi við, segir i-Soon hafa verið að vinna fyrir innanríkisráðuneyti Kína, kínverska herinn og fyrir ríkislögreglustjóra Kína.
Sjá einnig: Handteknir grunaðir um að reka kínverska lögreglustöð í New York
Hakkarar hafa meðal annars borið kennsl á aðgerðasinna sem skrifa undir nafnleynd á samfélagsmiðlum, bæði utan og innan landamæra Kína. Þá hefur hótunum verið beitt gegn þessu fólki til að fá þau til að fjarlægja færslur sem falla ekki í kramið hjá embættismönnum.
Fram kemur í frétt NYT að hakkarar i-Soon notuðu tól sem er sérstaklega þróað til að fara yfir aðganga á X (áður Twitter) og safna póstföngum, símanúmerum og öðrum persónuupplýsingum um notendur þar.
AP fréttaveitan hefur eftir starfsmönnum i-Soon að lekinn sé til rannsóknar, bæði hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins og hjá lögreglunni. Haldinn var fundur í fyrirtækinu í gær og þá var starfsmönnum sagt að lekinn myndi ekki hafa áhrif á starfsemi fyrirtækisins og var starfsmönnum sagt að halda áfram vinnu eins og ekkert hefði gerst.