Núna í vikunni sóttu átta íslenskir dómarar tveggja daga námskeið í myndbandsdómgæslu, í Stockley Park í Lundúnum en þar er einmitt VAR-miðstöð ensku úrvalsdeildarinnar staðsett.
Um er að ræða fyrra námskeið af tveimur sem íslenskir dómarar þurfa að sækja til að mega dæma VAR-leiki á alþjóðlegum vettvangi, samkvæmt frétt á vef KSÍ.
Þrír íslenskir dómarar eru með réttindi til að dæma slíka leik en það eru þeir Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Birkir Sigurðarson og Gylfi Már Sigurðsson.

Dómararnir átta sem nú eru hálfnaðir í átt að því að öðlast VAR-réttindi eru FIFA-dómararnir Helgi Mikael Jónasson og Ívar Orri Kristjánsson, Jóhann Ingi Jónsson dómari í Bestu deild, og FIFA-aðstoðardómararnir Andri Vigfússon, Eysteinn Hrafnkelsson, Kristján Már Ólason, Ragnar Bender, og Egill Guðvarður Guðlaugsson.
Námskeiðið var haldið af PGMOL, fyrirtæki sem heldur utan um dómgæslu í efstu deildum Englands, og á því voru einnig dómarar frá Norður-Írlandi, Írlandi, Wales og Svíþjóð.