Innlent

85 prósent ljós­mæðra telja mann­eklu hafa ógnað öryggi mæðra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hjúkrunafræðingur hlustar nýfætt barn.
Hjúkrunafræðingur hlustar nýfætt barn. Getty

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar BHM telja 85 prósent ljósmæðra að mannekla hafi ógnað öryggi mæðra á síðustu sex mánuðum og 48 prósent segja þetta gerast oftar nú en áður.

Tæplega þriðjungur ljósmæðra segist hafa íhugað að hætta ljósmóðurstörfum á síðustu tveimur árum, sem má helst rekja til of mikils álags, manneklu og óánægju með styttingu vinnuvikunnar í vaktavinnu.

Könnun BHM var gerð að ósk Ljósmæðrafélags Íslands í janúar síðastliðnum. Náði hún til um 300 ljósmæðra út um allt land og var svarhlutfallið um 70 prósent, segir í tilkynningu.

Hlutfall þeirra sem sögðu manneklu hafa ógnað öryggi mæðra var 93 prósent meðal ljósmæðra í vaktavinnu og 72 prósent meðal ljósmæðra í dagvinnu. Af þeim sem sögðu oftar vegið að öryggi sjúklinga nú en áður var 61 prósent í vaktavinnu.

75 prósent svarenda sögðu álag vera mikið eða of mikið og 70 sögðu það hafa aukist. Þá sögðu 54 prósent hafa íhugað að hætta í starfi á síðustu tveimur árum en þriðjungur þeirra sögðust hafa íhugað að hætta alfarið að starfa sem ljósmóðir.

„Þegar spurt var um upplifun af breyttum starfsaðstæðum með tilkomu betri vinnutíma (styttingu vinnuvikunnar) kemur í ljós að 54% ljósmæðra í vaktavinnu hjá ríkinu telur starfsaðstæður hafa versnað með tilkomu betri vinnutíma en aðeins 30% telja starfsaðstæður hafa batnað. Mikil ánægja er með betri vinnutíma meðal ljósmæðra í dagvinnu en óánægja í vaktavinnunni tengist helst svokölluðum „vaktahvata“ og neikvæðum áhrifum styttingarinnar á sveigjanleika í starfi,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×