„Gleðilegan sprengidag! Við Guðni þökkum Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu fyrir gómsætt saltkjöt og baunir og hlýjar móttökur,“ segir í færslu Elizu á Facebook. Ekki annað að sjá en að hamingjan leiki við Bessastaðahjónin.
Guðni tilkynnti nokkuð óvænt í áramótaávarpi sínu á nýársdag að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri til forseta Íslands þegar kjörtímabilið rennur út í sumar. Þau Eliza hefðu ákveðið að verja lífinu með öðrum hætti.
Eliza hefur verið á faraldsfæti og er tiltölulega nýkomin heim frá bókmenntahátíð í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Fyrir vikið var hennar sárt saknað á þorrablóti Álftnesinga á dögunum þangað sem Guðni mætti ásamt starfsfólki á Bessastöðum.
Hjónin eru að byggja sér fallegt einbýlishús í Garðabæ og styttist óðum í venjulegt fjölskyldulíf, mögulega öllu rólegra og rómantískara en í hlutverkum sínum fyrir hönd lands og þjóðar.
Guðni varð yngsti forseti Íslandssögunnar þegar hann tók við embætti 1. ágúst 2016, þá 48 ára. Eliza er átta árum yngri, var fertug á þeim tímamótum og um leið yngsti maki forseta.
Eliza, sem er frá Kanada, og Guðni kynntust í námi við Oxford háskóla á Englandi. Þau eiga fjögur börn saman á aldrinum ellefu til sextán ára. Guðni átti fyrir dótturina Rut með fyrri eiginkonu sinni.
Guðni og Eliza fagna tuttugu ára brúðkaupsafmæli sínu í júlí en þau giftu sig árið 2004.