Biden hefur reynt að fá ráðamenn í Ísrael til að breyta um stefnu en samkvæmt heimildarmönnum NBC News hefur „drullusokkurinn“ Netanjahú staðið í vegi þess. Biden hefur sagt ómögulegt að eiga við forsætisráðherrann ísraelska.
Undanfarnar vikur hefur reiði Biden í garð Netanjahú skinið í gegn, samkvæmt heimildarmönnum NBC, og hefur Biden minnst þrisvar sinnum kallað hann drullusokk eða „asshole“ á ensku.
Talsmaður Netanjahú sagði í samtali við miðilinn að Biden hefði gert ljóst að hann væri ósammála forsætisráðherranum að einhverju leyti. Leiðtogarnir hefðu þekkst í áratugi og samband þeirra byggði á virðingu, bæði opinberlega og í einrúmi.
Mótfallinn innrás í Rafah
Biden ræddi við Netanjahú í síma í gær. Þar sagði Biden að bæta þyrfti aðgengi íbúa Gasastrandarinnar að neyðarbirgðum og aðstoð og að Ísraelar ættu ekki að ráðast á Rafah, án þess hafa skipulagt vel hvernig hægt væri að vernda óbreytta borgara.
Allt að ein milljón manna heldur til í Rafah en þangað hafa þó flúið vegna hernaðar Ísraela gegn Hamas samtökunum. Ísraelar hyggjast nú ætla að ráðast á borgina.
Sjá einnig: Sprengjuregn á Rafah og tveimur gíslum bjargað
Samkvæmt frétt NBC telur Biden þó að hann ætti ekki að vera of harðorður í garð Netanjahú á opinberum vettvangi. Þá ku Biden ekki vilja gera miklar breytingar á stefnu Bandaríkjanna varðandi hernað Ísraela og telur að stuðningur við ríkið sé mikilvægur.