Valieva féll á lyfjaprófi sem var tekið á rússneska meistaramótinu á jóladag 2021, þegar hún var fimmtán ára. Hjartalyfið trimetazidine greindist í sýni hennar.
Þrátt fyrir að hafa fallið á lyfjaprófinu fékk Valieva að keppa á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Þar framkvæmdi hún stökk sem enginn hafði áður framkvæmt og hjálpaði Rússum að vinna gull í liðakeppninni í listdansi á skautum. Rússar voru hins vegar sviptir verðlaununum eftir að Valieva var dæmd í keppnisbannið. Bandaríkjamenn fá gullverðlaunin í staðinn.
CAS birti úrskurð sinn í heilu lagi í gær. Þar er málsvörn Valievu að finna og óhætt er að segja að útskýringar hennar á því hvernig hjartalyfið komst inn í líkama hennar séu áhugaverðar.
Valieva hélt því fram að hún hefði óvart innbyrt hjartalyfið þegar hún borðaði jarðarberjaeftirrétt sem var undirbúinn á sama skurðarbretti og afi hennar notaði til að mylja töflurnar sínar. Önnur útskýring sem Valieva kom með var að hún hefði notað sama glas og afinn hafi notað til að leysa upp pillurnar sínar.
CAS fannst útskýringar Valievu full langsóttar og tók þær ekki trúanlegar. Málsvörn hennar gat því ekki forðað henni frá fjögurra ára keppnisbanni.