Kounkoud var handtekinn á skemmtistað í París, rúmum sólarhring eftir að hann varð Evrópumeistari með franska landsliðinu. Hann var sakaður um að hafa reynt að nauðga ungri konu á skemmtistaðnum.
Kounkoud var yfirheyrður þegar runnið hafði af honum og svo sleppt úr haldi í kjölfarið. Rannsókn á málinu heldur hins vegar áfram og lögregla reynir meðal annars að safna fleiri vitnisburðum.
Kounkoud leikur með pólska meistaraliðinu Kielce. Eftir að hann var handtekinn sendi félagið frá sér yfirlýsingu að það tæki málið alvarlega og fordæmdi allt ofbeldi. Brugðist yrði við með viðeigandi hætti um leið og opinberar upplýsingar um málið lægju fyrir en að svo stöddu komnu máli myndi félagið ekki tjá sig frekar.
Kielce sendi hins vegar frá sér stutta yfirlýsingu á samfélagsmiðlum í dag þar sem fram kom að Kounkoud myndi ekki spila með liðinu á meðan rannsókn á máli hans stæði yfir hjá frönskum yfirvöldum.
KS Iskra Kielce S.A. informuje, e Benoit Kounkoud zosta odsuni ty od reprezentowania barw klubu w meczach naszej dru yny do czasu wyja nienia sprawy przez w adze francuskie.
— Industria Kielce (@kielcehandball) February 2, 2024
Kounkoud kom til Kielce frá Paris Saint-Germain sumarið 2022. Þar leikur hann með íslenska landsliðsmanninum Hauki Þrastarsyni.
Kounkoud var notaður sparlega á Evrópumótinu í Þýskalandi þar sem hann skoraði fimm mörk í jafn mörgum leikjum.