Af þessum 83,3 milljónum eru 18,3 miskabætur og 65 refsibætur. Honum hafði þegar verið gert að greiða henni tæpar sjöhundruð milljónir í kynferðisbrotamáli fyrir minna en ári síðan.
Carroll sakaði Trump um að hafa nauðgað sér í stórverslun í New York á 10. áratug síðustu aldar. Trump neitaði sök og sakaði hana á móti um að vera pólitískur útsendari og að hafa logið þessu upp á hann til að selja fleiri eintök af æviminningum sínum.
Í kjölfar kæru Carroll á Trump fyrir téð kynferðisbrot urðu ærumeiðingarnar fleiri og var þeim bætt við málið sem niðurstaða náðist í í dag.
Málinu verði áfrýjað
Trump sjálfur var ekki viðstaddur þegar niðurstaða í málinu var tilkynnt af kviðdómi. Hann tjáði sig um málið stuttu seinna á samfélagsmiðlinum Truth Social. Þar kallar hann niðurstöðuna „gjörsamlega fáránlega“ og sagðist munu áfrýja málinu.
„Gjörsamlega fáránlegt! Ég er hjartanlega ósammála báðum úrskurðum, og mun áfrýja öllum þessum nornaveiðum á vegum Bidens á mér og Repúblikanaflokknum. Dómskerfið okkar er stjórnlaust og verið er að nota það sem pólitískt vopn. Þeir hafa tekið frá okkur öll réttindi fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar. ÞETTA ERU EKKI BANDARÍKIN!“ skrifar hann.
Fyrsti viðauki bandarísku stjórnarskrárinnar kveður á um aðskilnað ríkis og kirkju og að bandaríska þinginu sé óhemilt að setja lög sem skerða trúfrelsi, tjáningarfrelsi, prentfrelsi, fundafrelsi eða frelsi fólks til að leita réttar síns hjá ríkinu.