Selst hefur upp á metttíma á þrenna tónleika íslensku ofurstjörnunnar í Hörpu. Síðast í morgun þegar miðar kláruðust á einni mínútu. Ísleifur segist bara hafa séð viðlíka mótttökur þegar Justin Bieber, Justin Timberlake og Ed Sheeran mættu til landsins.
Fréttastofu barst ábendingar frá ýmsum svekktum aðdáendum söngkonunnar sem ekki fengu miða. Þar kom fram að það hlyti að vera pottur brotinn í málinu, það gæti ekki verið að miðarnir hefðu selst upp svo hratt. Var því velt upp hvort Sena hefði selt fyrirtækjum meirihluta miða í forsölu.
„Fyrirtækjasala er meira og minna horfin. Fyrirtækin eru bara mjög lítið að kaupa miða. Þarna bara fara allir miðarnir í sölu og það er brjáluð umframeftirspurn. Það var ekki búið að fyrirframselja neina miða eða neinn skapaðan hlut,“ segir Ísleifur um málið.
Hann bendir á að stærsta fréttin í málinu séu þær ótrúlegu viðtökur sem Laufey hafi hlotið. Í fyrsta sinn síðan eftir heimsfaraldur komist færri að á tónleika á Íslandi en vilji. Laufey sé heimsfræg og sé mögulega á hátindi síns ferils.

Bjuggust við viðlíka viðbrögðum
„En við þekkjum orðið Íslendinga og við fórum inn í þetta vitandi það að þetta yrðu viðbrögðin. Við vissum að þetta yrði svona. Þetta er alltaf eins hjá Íslendingum, þeir verða fokreiðir og það koma fram svona ásakanir um eitthvað rugl,“ segir Ísleifur.
Hann bætir því við að ef Sena myndi vilja væri vel hægt að selja miða til fyrirtækja. Það væri erfitt og í raun fáránlegt að segja nei ef fyrirtæki myndi vilja eiga í viðskiptum við Senu.
„Það er ekkert bannað, en það bara er engin fyrirtækjasala þessa dagana. Ef einhver fyrirtæki myndu vilja kaupa fullt af miðum, hvaða fyrirtæki myndi segja nei við því? Auðvitað viljum við selja miðana. Hvurslags umræða er þetta?“
Ísleifur segir að Senu hafi meðal annars borist hótanir vegna miðasölunnar, hótanir um kærur og að kallað verði eftir rannsókn á miðasölu fyrirtækisins.
„Þetta er alveg með ólíkindum. Svona er þetta bara, þetta er allt í góðu. Það eru örugglega einhver furðulegheit í öllum löndum og á öllum mörkuðum. Þetta er svona hér hjá okkur. Íslendingar líta á það sem sinn heilaga rétt að fá miða á öll gigg.“