Laufey hafði þegar selt upp á tvenna tónleika í Hörpu 9. og 10. mars þegar Sena Live auglýsti þriðju tónleikana til sölu á tónleika föstudagskvöldið 8. mars. Sala hófst í morgun klukkan 10 og tókst aðeins þeim allra árvökulustu og sneggstu að verða sér út um miða.
Það ætti kannski ekki að koma neinum á óvart hve fljót miðarnir ruku út. Hið sama má segja um aðra tónleika á Bewitched túrnum. Framundan er tónleikaferðalag um alla Evrópu, Asíu og Bandaríkin sem telur í heildina yfir 60 borgir. Eftirspurn eftir miðum hefur verið afar mikil hvert sem litið er.
Platan Bewitched kom út í september síðastliðinn og hefur fengið einróma lof gagnrýnenda og tónlistarunnenda um allan heim. Platan hlaut tilnefningu til Grammy verðlauna og Billboard lofaði Laufeyju sem brautryðjanda djasstónlistar. Laufey er orðin mest spilaði Íslendingurinn á Spotify frá upphafi.
Sena Live hefur sagt að ekki sé unnt að bæta við fleiri tónleikum hér á landi.