Heimir Már Pétursson ræddi við forsætisráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2 um stöðu ríkisstjórnarinnar í ljósi tilkynningar Svandísar Svavarsdóttur í morgun um að hún hefði greinst með krabbamein í brjósti.
Hver tekur við skyldum Svandísar?
„Nú er þetta svo að Svandís tilkynnti um þetta í dag og boðar það að hún þurfi að minnsta kosti að taka nokkrar vikur í veikindaleyfi. Þanni að á þeim tíma, næstu nokkrar vikur, mun ég gera þá tillögu að ég muni sjálf gegna hennar störfum á meðan,“ sagði Katrín.
Heldurðu að örfáar vikur dugi til?
„Við auðvitað tökum svo bara stöðuna. Það eru alls konar ef í þessu en þetta er sú ráðgjöf sem hún fær frá sínum lækni. Að sjálfsögðu vonum við að þetta gangi allt eins og best verður á kosið,“ sagði Katrín.
Fréttir dagsins setji málin í nýtt samhengi
Vantrauststillagan var í raun og veru komin fram hér í þinginu, málið er auðvitað eftir. Það virðist mikil kurr í Sjálfstæðismönnum vegna þessa máls. Verður þetta mál áfram til vandræða?
„Nú er það svo að flutningsmenn vantrauststillögunnar hafa dregið hana til baka og sent bestu batakveðjur. Þetta auðvitað setur þessi mál í algjörlega nýtt samhengi. Ég vænti nú þess að við séum að minnsta kosti að fara í annan farveg en við sáum fyrir í upphafi þessarar viku í morgun,“ sagði Katrín.
Ætli vantraust verði ekki endurflutt þegar hún kemur til baka?
„Maður skyldi aldrei segja aldrei en það liggur fyrir að það verður ekki í þessari viku eins og stóð til,“ sagði hún.