Byltingarverðir Íran, sem er stærsta og valdamesta deild hers landsins, heyrir eingöngu undir Ayatollah Ali Khamenei, æðstaklerk Íran, sem stjórnar landinu. Þeir hafa lengi verið með viðveru í Sýrlandi og hafa þar stutt Bashar al-Assad, forseta, gegn uppreisnarmönnum.
Hersveitir þessar flytja þar að auki vopn til vígahópa sem yfirvöld í Íran styðja víðsvegar um Mið-Austurlönd, eins og Hesbollah í Líbanon og Sýrlandi, Húta í Jemen og aðra hópa í Írak.
Large explosion reported in Damascus, Syria. https://t.co/KF9UNvyDxx
— Faytuks News (@Faytuks) January 20, 2024
Aukinn kraftur hefur þó verið settur í árásir Ísraela í Sýrlandi og í Líbanon á undanförnum vikum og hafa þær verið banvænari en áður.
Sjá einnig: Felldu annan háttsettan á leið í jarðarför
Myndefni frá Damaskus sýnir að íbúðarhús virðist hafa hrunið í árásinni. Heimildarmaður Reuters í Damascus segir umrætt hús hafa verið notað af írönskum hernaðarráðgjöfum í Sýrlandi. AFP fréttaveitan vísar í íranska miðla, sem segja tvo meðlimi Byltingarvarðanna hafa fallið í árásinni.
Syrian Observatory for Human Rights, samtök sem vakta árásir í Sýrlandi, segja fimm hafa fallið í árásinni. Leiðtogar samtaka sem tengjast Íran hafi verið á fundi í húsinu. Íranskir miðlar segja leiðtoga íraksks vígahóps einnig hafa verið í húsinu.
Fregnir hafa einnig borist af særðu fólki.
Mikil spenna
Mikil spenna er í Mið-Austurlöndum þessa dagana og hefur sprengjum verið varpað víða. Frá því Ísraelar hófu mannskæðan hernað sinn á Gasaströndinni hafa ráðamenn víðsvegar um heiminn haft áhyggjur af því að átökin dreifist um Mið-Austurlönd og þar hefur helsta hættan verið á átökum milli Ísraela og Hesbollah.
Sveitir tengdar Íran hafa einnig gert árásir á bandaríska hermenn í Írak og í Sýrlandi og hefur þeim árásum verið svarað með loftárásum Bandaríkjamanna á Írana í Sýrlandi. Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hafa einnig gert árásir á uppreisnarmenn Húta í Jemen, vegna eldflauga- og drónaárása þeirra á fraktskip á Rauðahafi og annarsstaðar undan ströndum Jemen.
Íranar skutu einnig nýverið eldflaugum að Írak og Pakistan en þeir síðastnefndu svöruðu með eigin skothríð á Íran.