Hún segir eingöngu Grindvíkinga hafa leitað aðstoðar í Efstaleiti, engir ferðamenn hafi komið hingað til. Fjöldahjálparstöðin er hugsuð sem viðkomustaður fyrir fólk sem ekki hefur í önnur hús að venda. Þeim sem þangað leita er útvegað skammtímahúsnæði, sem Rauði krossinn hefur unnið að síðustu daga að kortleggja. Ekki er gert ráð fyrir að neinn gisti í Efstaleitinu.
„Það á enginn að þurfa að gista á bedda í nótt,“ segir Aðalheiður. Þá hvetur hún þá sem dvöldu í Grindavík til að láta vita af sér.
„Ef einhver sem hefur dvalið í Grindavík í nótt og hefur ekki látið vita af sér þá skal hann endilega hringja í 1717 og upplýsa um dvalarstað,“ segir Aðalheiður. Þá tekur hún fram að hægt sé að koma í fjöldahjálparstöðina til að fá sálrænan stuðning og njóta samveru við aðra í svipaðri stöðu.