Sport

Fritz snýr aftur í annað sinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Henning Fritz var á sínum tíma besti markvörður heims, hann þjálfar hjá þýska landsliðinu í dag en hefur ákveðið að snúa aftur á parketið í einn leik.
Henning Fritz var á sínum tíma besti markvörður heims, hann þjálfar hjá þýska landsliðinu í dag en hefur ákveðið að snúa aftur á parketið í einn leik.

Henning Fritz, fyrsti markvörðurinn til að vera valinn besti handboltaleikmaður heims og núverandi markmannsþjálfari þýska landsliðsins hefur ákveðið að taka skóna af hillunni í annað sinn. 

Fritz skrifaði undir samning við ítalska félagið SSV Bozen. Hann kemur til bjargar vegna brotthvars Christophoros Nungovitch sem var óvænt kallaður til leiks fyrir hönd Kongó á Afríkumótinu sem haldið er í Egyptalandi þann 17.–27. janúar 2024.

SSV Bozen fékk leikjum sínum þann 20. og 27. janúar frestað en Nungovitch verður farinn þegar liðið mætir SSV Loacker þann 14. janúar. Félaginu vantaði því markvörð í þann leik og náði bara í einn besta markmann allra tíma. 

Fritz var valinn besti leikmaður heims árið 2004, sama ár og hann varð Evrópumeistari og sótti silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Aþenu. Þeir urðu svo heimsmeistarar 2007. Fritz er fæddur árið 1974 og var í um 15 ár aðalmarkvörður gríðarsterks þýsks landsliðs. 

Í heimalandinu spilaði hann lengst af með Magdeburg og Kiel, við góðan árangur, hann lagði skóna á hilluna 2012 en sneri aftur árið 2021 með SG Flensburg-Handewitt, ekki ósvipað og hann gerir nú með ítalska félaginu SSV Bozen. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×