Umfjöllun Guardian, sem ber yfirskriftina Hjólahvíslarinn á Íslandi: Sjálfskipaður laganna vörður sem finnur stolin hjól og hjálpar þjófum að breytast, hefst á stuttri yfirferð yfir hvernig ferill Bjartmars í hjólaendurheimt hófst árið 2019.
Hann hafi tekið eftir aukningu í hjólaþjófnaði, og í stað þess að sætta sig við hana hafi hann ákveðið að gera eitthvað í málunum. Fjórum árum síðar hafi hróður hans borist víða meðal reykvísks hjólafólks og fjöldi fólks leitað til hans í leit að stolnum hjólum
„Þetta er eins og lítill snjóbolti sem varð mjög stór, mjög hratt,“ er haft eftir Bjartmari.
Bjartmar er á meðal þeirra tíu sem tilnefnd eru sem maður ársins 2023 í vali á manni ársins hjá Vísi og Reykjavík síðdegis.
Í tilnefningum sagði meðal annars um Bjartmar:
„Maðurinn er óþreytandi í að leita uppi stolin hjól og önnur verðmæti og hefur hjálpað þjófum að snúa á rétta braut.“
Lögreglan hrósar Bjartmari í hástert
Þá fer Bjartmar yfir það samfélag sem hefur myndast í Facebook-hópnum Hjóladót ofl. tapað fundið eða stolið, sem telur tælpega 15 þúsund meðlimi.
„Ég er ekki einn í þessu. Oft sér einhver hjól falið í runna, tekur mynd og þá kommentar annar „Þetta er hjólið mitt!“ Þannig að það eru allir með augun opin.“
Í umfjölluninni er einnig litið til tölfræði yfir hjólaþjófnað í Reykjavík. Tilvikum fækki milli ára. Þau hafi verið 569 árið 2021, 508 á síðasta ári og 404 á fyrstu 11 mánuðum þessa árs.
Þá er haft eftir Guðmundi Pétri Guðmundssyni, lögreglufulltrúa í Reykjavík, að Bjartmar standi sig frábærlega.
„Lögreglan vísar eigendum stolinna hjóla oft á sölusíður á Facebook og svo á síðuna hans [Bjartmars], til að auka líkurnar á að hjólin finnist aftur,“ sagði Guðmundur.
Reiður í fyrstu
Bjartmar lýsir því að fyrst hafi hann verið reiður þeim hjólaþjófum sem urðu á vegi hans. Það hafi fljótt breyst.
„Ég hugsaði: Ég get öskrað þar til ég er blár í framan, en það mun engu breyta. Þannig að ég ákvað að reyna að tala við þá á jafningjagrundvelli,“ segir Bjartmar.
Þá hafi hlutirnir breyst, hann hafi vingat við suma þeirra sem tekið höfðu hjól. Einhverjir þeirra hafi jafnvel slegist í för með honum og hjálpað til við að finna stolin hjól. Enn öðrum hafi hann hjálpað í meðferð við fíkn.