Alves er ákærður fyrir að nauðga konu á næturklúbbi í Barcelona í desember 2022. Saksóknari staðfesti í nóvember á þessu ári að næg sönnunargögn væru til staðar til að opna réttarhöld.
Alves neitaði því fyrst alfarið að hafa verið í samneyti við konuna en breytti síðar sögu sinni og sagði þau hafa stundað kynlíf með samþykki beggja aðila. Alves hefur margsinnis beðist lausnar en verið haldið föngnum vegna áhyggna spænskra yfirvalda að hann flýji land verði hann látinn laus.
Saksóknari málsins hefur farið fram á 9 ára fangelsisdóm en lögfræðingar konunnar sem kærir Alves hafa farið fram á 12 ára fangelsi, nálgunarbann að því loknu og 150.000 evrur í miskabætur.
Ljóst er að Alves gæti átt langa vist framundan bak við lás og slá. Hann er einn sigursælasti knattspyrnumaður sögunnar með 42 titla á ferlinum, hann kom við sögu í tveimur leikjum fyrir brasilíska landsliðið á HM 2022 og spilaði svo einn leik með UNAM Pumas í janúar 2023 áður en hann var handtekinn.