Fram kemur í tilkynningu frá Bláa lóninu að öllum starfsstöðvum lónsins hafi verið lokað og gildi lokunin til 28. desember, þegar staðan verður endurmetin. Haft verði samband við alla gesti sem eiga staðfestar bókanir á næstu dögum.
Dregið hefur úr krafti eldgossins síðan það hófst með miklum látum upp úr klukkan tíu í gærkvöldi.
Bláa lónið opnaði aftur á sunnudag eftir fimm vikna lokun. Aðeins sólarhring síðar hófst eldgosið. Meðal þeirra gesta sem fengu að baða sig í Bláa lóninu í gær og fyrradag voru þrír kínverskir ferðamenn sem fréttastofa ræddi við í morgun. Þá voru þeir að reyna að berja eldgosið augum.
Fram kemur í tilkynningu frá lóninu að áfram haldi forsvarsmenn að fylgjast með stöðunni í nánu samráði við yfirvöld.
„Líkt og vísindamenn höfðu spáð fyrir um kom gosið upp í Sundhnúksgígaröðinni sem er staðsett í virku eldstöðvakerfi norðan Grindavíkur, austan við Bláa lónið. Sem stendur hefur eldgosið ekki haft áhrif á flugumferð á Keflavíkurflugvelli og er umferð um Reykjanesbraut nú með eðlilegum hætti.“