Það er ævintýraheimur að komast í bílskúrinn hjá Aðalsteini J. Maríussyni og sjá allt það fallega handverk sem hann er að vinna, ekki síst úr grjóti. Svo er allt svo snyrtilegt og fínt í bílskúrnum, steinunum raðað upp á hillurnar og öðru handverki komið haganlega fyrir.
Aðalsteinn hefur starfað við múrverk í 57 ára en þegar aldurinn fór að segja til sín ákvað hann að finna sér eitthvað til að dunda við og þá komu steinarnir við sögu, saga þá, slípa og gera fína.
„Jú, þetta er alltaf jafn gaman. Hér er engin tími, maður lítur aldrei á klukku eða þess háttar. Það er alltaf eitthvað sem bíður og tíminn, manni finnst tíminn líða stundum of hratt, maður hefur ekki við að klára eða ljúka ákveðnum verkefnum, það er svoleiðis,” segir Aðalsteinn.

Og litlu fánastangirnar hjá Aðalsteini rjúka út eins og heitar lummur.
„Það er granít steinn í þessu og í rauninni helgur steinn, þetta er afgangur, sem kom úr kirkjugarðinum. Svo er ég með íslenska steina, blágrýti líka í stöngunum úr fjörunni. Fjörusteinarnir eru mitt uppáhald líka, blágrýtið, það er nóg til að góðum steinum hér í Skagafirði,” bætir hann við.

Og það er ekki hægt að kveðja Aðalstein án þess að fá að sjá steinaklukkurnar hans aðeins, þær eru mjög fallegar og vinsælar í gjafir.
„Ég er meðal annars með blágrýti í því, stundum röndótt, sem er mjög skemmtilegt. Svo bara kippir maður klukkunni úr og setur batterí í,” segir Aðalsteinn og bætir við að allir séu velkomnir í bílskúrinn hans til að skoða steinana eða annað, sem hann er að fást við skúrnum sínum.

Facebooksíða Aðalsteins þar sem hægt er að skoða verkin hans og fleira