Þetta staðfestir Arnþrúður Þórarinsdóttir, sem sækir málið fyrir hönd ákæruvaldsins, í samtali við Vísi. DV greindi fyrst frá ákærunni.
Arnþrúður segir að ákæran hafi ekki enn verið birt Dagbjörtu og fyrirkall ekki verið gefið út. Því liggur ekki annað fyrir í málinu en að Dagbjört sæti ákæru fyrir manndráp samkvæmt 211. grein almennra hegningarlaga.
Hefur verið í gæsluvarðhaldi í tæpa þrjá mánuði
Það var mánudagsmorguninn 25. september sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér tilkynningu um að 58 ára karlmaður hefði fundist meðvitundarlaus í félagsíbúð við Bátavog í Reykjavík laugardagskvöldið 23. september.
Kona um fertugt hefði verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna eftir að hafa verið handtekin í íbúð í austurborginni á laugardagskvöld.
Tilkynning hafði borist lögreglu sama kvöld og þegar lögregluþjónar mættu á staðinn hófu þeir þegar endurlífgunartilraunir. Hann var í framhaldinu fluttur á Landspítalann en úrskurðaður látinn við komuna.
Dagbjört Rúnarsdóttir, sem hefur ekki verið nafngreind fyrr en nú, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan.