Atvikið sem um ræðir eru mótmæli vegna stöðunnar í Palestínu en mótmælendur hentu glimmeri yfir utanríkisráðherra, Bjarna Benediktsson. Krafa þeirra var meðal annars að Ísland sliti viðskiptasambandi við Ísrael.
Í yfirlýsingu frá Alþjóðamálastofnuninni kemur fram að ætlun þeirra hafi verið að ræða mikilvægi mannréttinda í heiminum en að mótmælin hafi komð í veg fyrir að fundurinn gæti farið fram, auk þess að ráðist hafi verið að utanríkisráðherra.
„Það er alvarleg þróun í samfélagi okkar ef stjórnmálamenn þurfa að óttast um öryggi sitt þegar þeir koma fram á opinberum vettvangi. Eins verðum við að vona að mótmælin í gær vísi ekki á það sem koma skal, því að lýðræði og mannréttindi þrífast aldrei í samfélagi þar sem fólk vill ekki hlusta á skoðanir hvers annars,“ segir að lokum.
Utanríkisráðherra sagði frá því á Facebook fyrr í dag að hann hafi þurft að ræða mótmælin við dóttur sína. Hann sagði mótmælin hreint skemmdarverk.
Hópur 569 Íslendinga sendi í gær opið bréf á fjóra ráðherra og forseta Íslands þar sem þess er krafist að stjórnvöld slíti stjórnmála- og viðskiptasambandi við Ísrael, veiti öllum palestínskum umsækjendum tafarlaust alþjóðlega vernd og segi sig frá þátttöku í Eurovision verði Ísrael ekki vísað úr keppni.
Bandaríkin sögðu nei
Bandaríkin beittu neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í gær gegn tillögu þar sem krafist er vopnahlés á Gasa. Fimmtán ríki eiga sæti í öryggisráðinu.
Síðastliðinn miðvikudag krafði Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, öryggisráðið formlega um viðbrögð við ástandinu á Gasa. Hann virkjaði 99. grein stofnsáttmála samtakanna en aðeins einu sinni áður hefur það verið gert.