Farbannið rann út fyrir helgi og Héraðsdómur Suðurlands framlengdi það ekki. Lögreglan á Suðurlandi hefur kært ákvörðunina til Landsréttar.
RÚV greinir frá þessu og hefur eftir Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni á Suðurlandi, að lögreglunni þyki enn þörf á farbanni svo maðurinn fari ekki úr landi. Jafnframt segir hann rannsókn málsins á lokametrunum.
Tveir karlmenn voru handteknir í kjölfar andláts hinnar 28 ára gömlu Sofiu, sem fannst látin í heimahúsi á Selfossi, í apríl. Annar mannanna var handtekinn á vettvangi en hinn skömmu síðar, en öðrum þeirra var sleppt úr haldi nokkrum dögum síðar en hinn úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Gæsluvarðhald mannsins var til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna lengdar þess, en maðurinn sat í varðhaldi í átján vikur þrátt fyrir að lög um meðferð sakamála kveði á um að ekki megi halda manni í gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur nema mál hafi verið höfðað gegn honum eða brýnir rannsóknarhagsmunir krefjist þess.
Maðurinn er grunaður um að hafa orðið valdur að bana Sofiu en hann hefur neitað sök og sagt hana hafa látist úr ofneyslu fíkniefna. Þess má geta að ekkert hefur verið gefið upp um dánarorsök hennar.
Ekki náðist í yfirlögregluþjón á Suðurlandi við vinnslu fréttarinnar, né í verjanda mannsins.