Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vinnumálastofnun, þar sem segir að 79 starfsmönnum hafi verið sagt upp störfum í framleiðslu á tölvu-, rafeinda- og optískum vörum. Hópuppsagnirnar komi flestar til framkvæmda í febrúar á næsta ári.
Eins og fréttastofa greindi frá 27. nóvember síðastliðinn misstu áttatíu vinnuna hjá hátæknifyrirtækinu í hópuppsögn þann sama dag. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins sagði í samtali við fréttastofu að flestir þeirra áttatíu starfsmanna sem misstu vinnuna starfi í starfsstöð félagsins á Íslandi.
Með hópuppsögn er átt við uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum þar sem fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á þrjátíu daga tímabili er að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 21-99 í vinnu, minnst 10% starfsmanna í fyrirtækjum með 100-299 í vinnu eða minnst 30 starfsmenn þar sem venjulega eru 300 eða fleiri.
Félagið er með höfuðstöðvar í Holtasmára í Kópavogi en einnig með starfsstöðvar í Bandaríkjunum, Hollandi, Danmörku og Póllandi. Ætla má að einn starfsmaður á annarri starfsstöð en hérlendis hafi misst vinnuna í hópuppsögnunum.
Ævintýralegur vöxtur
Controlant er íslenskt hátæknifyrirtæki sem fór á flug í kórónuveirufaraldrinum. Fyrirtækið gegndi lykilhlutverki í dreifingu og geymslu bóluefnaskammta gegn Covid-19 fyrir bandaríska lyfjarisan Pfizer og vöxtur þess hefur verið ævintýralegur síðustu ár.
Samkvæmt frétt Innherja frá því í upphafi árs voru tekjur Controlant á síðustu tveimur ársfjórðungum síðasta árs vel yfir 30 milljónir dala, eða 4,4 milljarða króna, á hvorum fjórðungi fyrir sig. Veltan á síðasta ári jókst um nærri 100 prósent milli ára og var samtals um 130 milljónir dala, eða um 19 milljarðar króna.
Fyrirtækið var stofnað árið 2007 og starfa þar nú 450 af 40 þjóðernum.