Ísraelsher tók yfir norðurhluta Gasa í nóvember og hefur sótt hart suður eftir að umsömdu hléi á átökum lauk fyrir fjórum dögum. Reuters hefur eftir íbúum að búið sé að loka fyrir umferð milli norðurs og vesturs og herinn segir aðal veginn norður frá Khan Younis nú vígvöll.
Talsmenn Sameinuðu þjóðanna segjast hafa verulegar áhyggjur af þróun mála og óttast að neyðaraðstoð til handa íbúum hætti að berast þangað sem hennar er þörf. Það sé hvergi öruggt að vera og engin leið til að aðstoða fólkið.
Yfirvöld í Ísrael hafa hækkað viðbragðsstig í nokkrum ríkjum, sem þýðir að aukin hætta er talin á árásum gegn Ísraelsmönnum í viðkomandi löndum. Um er að ræða Bretland, Frakkland, Þýskaland, Ástralíu, Rússland, Brasilíu og Argentínu, svo dæmi séu nefnd.
Ísraelsmenn í þessum ríkjum eru hvattir til að forðast mótmæli gegn Ísrael og samkomur þar sem Ísraelar koma saman. Þá eru þeir hvattir til að bera þess ekki merki að vera Ísraelsmenn eða gyðingar.