Hér má sjá viðtalið við Sól í heild sinni:
„Það hefur alltaf verið öryggi í því að geta stjórnað klæðaburðinum sjálf. Mér finnst ég bæði hafa stjórn á því hvernig mér líður og hvernig aðrir upplifa mig. Það er kraftmikið skref og þetta hefur verið svona hjá mér svo lengi sem ég man eftir mér,“ segir Sól. Fyrir henni er mikilvægt að geta stýrt eigin ímynd og ræðir meðal annars um kynjaðar og kyngerðar staðalímyndir. Því finnst henni öflugt frelsi í því að geta tjáð sig með flíkunum sínum.
„Mamma hætti að reyna að klæða mig í hluti sem hún vildi að ég klæddist þegar ég var fjögurra ára, því það var bara ekki hægt að stjórna því hjá mér.
Ég var að setja saman eitthvað fáránlegt segir hún en ég þori að veðja að það var ekkert fáránlegt, það meikaði örugglega sens fyrir mér.“
Þessi tjáningarþörf Sólar átti heldur betur eftir að þróast. Í kringum fermingu fékk hún sína fyrstu saumavél og þá var ekki aftur snúið. Hún kláraði BA gráðu í fatahönnun við Listaháskóla Íslands og fór svo út til London í starfsnám. Í kjölfarið komst hún inn í hinn virta háskóla Central Saint Martins þar sem hún lauk við meistaranám og hélt svo áfram að þróa sína eigin hönnun.