Tveir starfsmenn Controlant hafa greint frá því í samtali við fréttastofu að starfsmenn hafi verið boðaðir á fund, hver á fætur öðrum, í morgun og þeim sagt upp störfum. Ekki liggi fyrir hver ástæða uppsagnanna er.
Controlant er íslenskt hátæknifyrirtæki sem fór á flug í kórónuveirufaraldrinum. Fyrirtækið gegndi lykilhlutverki í dreifingu og geymslu bóluefnaskammta gegn Covid-19 fyrir bandaríska lyfjarisan Pfizer og vöxtur þess hefur verið ævintýralegur síðustu ár.
Samkvæmt frétt Innherja frá því í upphafi árs voru tekjur Controlant á síðustu tveimur ársfjórðungum síðasta árs vel yfir 30 milljónir dala, eða 4,4 milljarða króna, á hvorum fjórðungi fyrir sig. Veltan á síðasta ári jókst um nærri 100 prósent milli ára og var samtals um 130 milljónir dala, eða um 19 milljarðar króna.
Fyrirtækið var stofnað árið 2007 og í október síðastliðnum störfuðu þar um 500 af 40 þjóðernum.
Ásthildur Otharsdóttir, stjórnarformaður, vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu. Þá náðist ekki í Gísla Herjólfsson, framkvæmdastjóra Controlant, við vinnslu fréttarinnar. Ekki hefur heldur náðst í Láru Hilmarsdóttur upplýsingafulltrúa.