Rússar gerðu í gærmorgun eina umfangsmestu drónaárás sem þeir hafa gert á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, frá því stríðið hófst. Sendiherra Íslands gagnvart Úkraínu var í borginni í gær, til þess að vera viðstaddur minningarathöfn um Holodomor hópmorð Rússa á Úkraínumönnum þar sem um fjórar milljónir týndu lífi, nú þegar 90 ár eru liðin frá lokum þeirra.
„Tímasetningin var nú engin tilviljun,“ segir Hannes Heimisson, sendiherra. Hann var staddur um 100 kílómetra vestur af Kænugarði þegar fréttastofa ræddi við hann, á leið sinni til Varsjár. Hannes er sendiherra í Póllandi en sendiskrifstofa hans hefur fyrirsvar vegna Búlgaríu, Rúmeníu og Úkraínu einnig á hendi.
Flestir drónanna skotnir niður
Enginn lést í árásum Rússa á Kænugarð í gær, en töluvert eignatjón varð.
„Það kvikna oft eldar þegar þessir drónar lenda og stundum verður tjón. Margir þeirra eru skotnir niður. Úkraínumönnum tekst nú yfirleitt að skjóta niður þorra þessara dróna.“
Hannes segir eðlilega óþægilegt að vakna upp við sprengjudrunur. Hann þurfti þó ekki að færa sig um set vegna árásarinnar, ólíkt kollegum sínum.
„Loftvarnarflauturnar byrjuðu að hringja tiltölulega snemma. Þannig að þeir komust ekkert upp á hótelherbergi og urðu að eyða nóttinni í loftvarnarbyrgi,“ segir Hannes.
Þjóðin einhuga
Á minningarathöfninni í gær, sem var haldin í þinghúsinu, ræddi Hannes meðal annars við Rúslan Stefantsjúk, forseta úkraínska þjóðþingsins.
„Þjóðin stendur einhuga bak við sína pólitísku forystu og leitar allra leiða til sigurs í þessu stríði og til að reka Rússana aftur yfir landamærin heim til sín.“
Undanfarna mánuði hafa Rússar sparað sjálfsprengidróna sína og eldflaugar en Úkraínumenn óttast nú að umfangsmiklar árásir verði gerðar á orkuinnviði landsins í vetur, líkt og síðasta vetur.