Rauði krossinn vinnur nú aftur að því að koma upp neyslurými í einingahúsum. Greint var frá því í sumar, eftir að neyslurýminu Ylju var lokað, að Terra einingar hefðu boðið Rauða krossinum einingar án endurgjalds.
Reykjavíkurborg sagði í kjölfarið að þeim litist ekki á hugmyndina og vildu frekar koma starfseminni fyrir í einhverju húsnæði. Nokkur húsnæði hafa verið til skoðunar hjá borginni en það aldrei komist lengra en í grenndarkynningu vegna mótmæla.
„Nú erum við komin heilan hring og það er verið að skoða ákveðna lóð í Reykjavík fyrir þessa þjónustu,“ segir Sigurbjörg Birgisdóttir deildarstjóri Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu.

Hún segir Rauða krossinn tilbúinn í verkefnið. Þau séu nú að safna gögnum í umsóknina sem þarf að senda umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar um stöðuleyfi.
„Ríkið á það land sem nú er til skoðunar en sótt erum stöðuleyfi til umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar um afnotin.“
Þurfa ekki að fara í grenndarkynningu
Sigurbjörg segist ekki geta gefið upp hvar í Reykjavík lóðin sé en að þau séu bjartsýn að umsóknin verði tekin fyrir um leið og hún berst.
„Ég held að allir séu núna einhuga um að drífa þetta í gegn,“ segir Sigurbjörg.
Hún segir Terra einingar geta komið einingahúsunum upp á um átta vikum.
„Það þarf stöðuleyfi og afgreiða hluti eins og skólp og rafmagn,“ segir hún og tekur fram að miðað við það svæði sem þau eru að skoða þurfi ekki að fara í grenndarkynningu.
Neyslurýminu Ylju var lokað í mars á þessu ári. Rýmið var rekið í bíl í það ár sem það var rekið sem tilraunaverkefni. Mikið aðsókn var í úrræðið. Sigurbjörg segir það neyslurými sem verði rekið í einingunum töluvert betra og rýmra.
„Við erum komin með teikningar sem við erum sátt við. Sérfræðingarnir okkar sem hafa starfað í skaðaminnkun hafa metið þörfina út frá þekkingu sinni og reynslu. Þær eru sáttar við þá möguleika sem einingarnar bjóða upp á. Það er verið að bæta þjónustuna að miklu leyti og aðstaðan er miklu mannúðlegri,“ segir Sigurbjörg.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir fullan vilja hjá borginni að vinna að þessu verkefni áfram með Rauða krossinum. Fyrst það hafi ekki gengið að finna húsnæði sem þegar sé til hafi þau sett það í hendur Rauða krossins að koma einingahúsunum upp.
„Það hefur verið ótrúlega flókið að finna húsnæði. Um leið og eitthvað húsnæði hefur fundist hefur því verið mótmælt. Að einhverju leyti skilur maður það því það er verið þá að stefna fólki sem notar vímuefni í æð á staðinn, en að einhverju leyti ekki, því fólk er auðvitað að nota vímuefni í æð víða um borgina. Umhverfið verður betra og fallegra ef það fólk býr við meira öryggi og hefur einhvern stað til að leita ráðgjafar og fá heilbrigðisþjónustu. Maður því bæði skilur viðbrögðin, og ekki,“ segir Heiða Björg og heldur áfram:
„Ég held við Reykvíkingar séum í einhverju þroskaferli. Þetta gekk mjög vel í bílnum og ég hef enga trú á öðru en að þetta gangi vel upp um leið og við finnum nýja staðsetningu og getum opnað.“