Fjórir fyrirburar eru sagðir hafa látist á síðustu dögum.
Ísraelsher hefur birt myndskeið sem herinn segir sýna gísla sem teknir voru fanga í árásum Hamas á byggðir Ísraelsmanna 7. október síðastliðinn á al Shifa sjúkrahúsinu. Herinn hefur löngum haldið því fram að undir sjúkrahúsinu sé að finna höfuðstöðvar Hamas.
Um er að ræða að minnsta kosti tvö myndskeið en á öðru þeirra sést maður dreginn inn um anddyri af fimm mönnum og eru þrír þeirra vopnaðir. Hitt myndskeiðið sýnir særðan mann á nærfötunum fluttan inn á sjúkrabörum af sjö mönnum og eru fjórir vopnaðir.
Samkvæmt erlendum miðlum má sjá heilbrigðisstarfsmenn á upptökunum, sem virðist hissa þegar komið er inn með mennina. Bæði myndskeiðin eru dagsett 7. október en uppruni þeirra hefur ekki verið staðfestur, það er að segja að þau sýni það sem herinn segir þau sýna.
Ráðherrar Arabaríkja komu saman í Pekíng um helgina, þar sem þeir funduðu með Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. Viðstaddir kölluðu eftir tafarlausu vopnahléi á Gasa og Wang hvatti til samvinnu til að draga úr spennu á svæðinu og koma aftur á friði í Mið-Austurlöndum.
Ísraelsher hefur sagst vera að útvíkka aðgerðir sínar á Gasa og hefur hvatt íbúa Jabalia, stærstu flóttamannabúða svæðisins, til að rýma búðirnar. Talsmaður heilbrigðisyfirvalda á Gasa, sem eru undir stjórn Hamas, sagði yfir 80 hafa látist í árásum á Jabalia á laugardag.