Um 1000 skjálftar hafa mælst yfir kvikuganginum við Grindavík frá miðnætti í nótt samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands og er staðan svipuð og síðustu daga. Engin teljandi merki eru um breytta virkni yfir kvikuganginum og gosórói hefur ekki mælst á jarðskjálftamælum. Íbúum ríflega eitt hundrað heimila í Grindavík var hleypt inn í bæinn í dag til að bjarga verðmætum og í kjölfarið var fyrirtækjum hleypt inn nú síðdegis.
Notkun nýs skráningarkerfis Almannavarna yfir íbúa hefur gengið vel að sögn upplýsingafulltrúa Almannavarna í samtali við fréttastofu sem segir nú búið að ná utan um þann hóp sem ekki hefur enn komist inn í bæinn. Í dag var miðstöð fyrir erlent fjölmiðlafólk sem komið hefur hingað til lands til að fjalla um jarðhræringarnar opnuð í Hafnarfirði og segir ferðamálastjóri miðstöðina hafa verið vel sótta strax við opnun.
Full þörf á fjölmiðlamiðstöð
„Þetta er liður í því að veita aukna þjónustu til þeirra. Við áætlum að hingað hafi verið send um fjörutíu til fimmtíu teymi erlendra fjölmiðla til að fjalla um þessa atburði,“ segir Arnar. Þrátt fyrir að margir fjölmiðlar séu nú þegar farnir heim hafi dagurinn í dag sýnt það að enn væri full þörf á miðstöð sem þessari enda margir sem hafi komið í heimsókn í dag.
Þá sé miðstöðin einnig liður í því að létta á álagi á viðbragðsaðila. „Þetta er líka vettvangur almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra að hitta fjölmiðla, spjalla við þá og gefa þeim réttar upplýsingar,“ segir Arnar. Mikilvægt sé að ná til erlendu fjölmiðlanna. „Þau eru ekki bara að fjalla um gosið. Á meðan beðið er þá er þetta fólk að segja sögur af Íslandi og hér er tækifæri til að koma Íslandi á framfæri sem áfangastað.“

Stórir fjölmiðlar kíktu í heimsókn
Í dag hafi fjölmiðlar á borð við CNN, Fow News, AFP og ZDF sótt miðstöðina. Hinn þýski Henner Hebestreit, fréttamaður ZDF í Þýskalandi, segist svekktur yfir því að hafa ekki fengið að fara inn í Grindavík. Ástæðurnar séu þó skiljanlegar. Hann hefði þó kosið að komast inn í bæinn til að ná sínu eigin myndefni líkt og til að mynda breskir fjölmiðlar náðu að gera.