Fólkið lagðist á jörðina í verslunarmiðstöðinni, sveipað hvítum lökum. Mörg þeirra voru með rauðum málningarslettum, og ætlunin væntanlega sú að líkja eftir líkum þeirra sem hafa látist í árásum Ísraels á Gasa að undanförnu.
Í yfirlýsingu frá skipuleggjendum gjörningsins segir að þess sé krafist að Ísland slíti stjórnmalasambandi við Ísrael og beiti ríkið viðskiptaþvingunum.
„Enda eiga ríki sem fremja stríðsglæpi ekki að fá efnahagslegan stuðning til þess. Krafa okkar til Íslenskrar ríkisstjórnar er þessi: Setjið viðskiptabann á Ísrael. Slítið stjórnmálasambandi við Ísrael. Krefjist vopnahlés á alþjóðavettvangi - STRAX. Lifi frjáls Palestína!“ segir í tilkynningunni.

