Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var að vonum ekki sáttur með frammistöðu síns liðs í kvöld.
„FH var með frumkvæðið meira og minna. Það voru kaflar sem voru frekar höktandi og svo náðum við glimrandi fínum sóknum svona inn á milli en þetta var svona fyrst og fremst við í vandræðum með þeirra stöðusóknir. Þeir voru bara þolinmóðir og skynsamir og fundu alltaf góðar lausnir eftir tiltölulega langar sóknir.“
„Það bara kom aldrei momentum með okkur þar sem allt kom í lás. Við náðum aldrei að vera með þá varnarlega þó þetta hafi ekki verið nein skelfing. Það kom aldrei perioda þar sem Aron [Rafn Eðvarðsson] var að verja tvo þrjá bolta og við að stela, við náðum því ekki inn,“ sagði Ásgeir Örn.
„Við fórum í sjö á sex til að kick-starta sóknarleiknum, því hann var mjög slakur í byrjun seinni hálfleiksins. Það voru jákvæðir punktar sem við ætluðum klárlega að gera,“ segir Ásgeir Örn um ljósa punkta í leik liðsins í síðari hálfleik.
Ásgeiri Erni fannst sínir menn ekki nægilega sterkir varnarlega í kvöld.
„Hann [Daníel Freyr Andrésson, markvörður FH] ver kannski nokkur dauðafæri og við erum bara ekki nógu góðir varnarlega. Við vorum bara ekki að forvinna nægilega á línumanninn, fengum bara á okkur stundum skíta mörk eftir langar sóknir sem er pirrandi.“
Jón Bjarni Ólafsson, línumaður FH, endaði með tíu mörk í leiknum í kvöld en línumenn Hauka skoruðu samanlagt sjö mörk. Kemur það á óvart hversu mikið af vel heppnuðu línuspili var í leiknum þar sem tvö bestu varnarlið deildarinnar voru að mætast. Ásgeir Örn gerði alls ekki ráð fyrir því að varnir liðanna beggja myndu gefa svona gott færi á sér inn á línunni.
„Ég skal bara viðurkenna það að ég bjóst ekki við því að Jón Bjarni myndi skora tíu og Þráinn fimm, það er ekki það sem ég hefði tippað á fyrir leikinn. Það var allavegana ekki uppleggið okkar,“ sagði Ásgeir Örn að lokum.