Skoðun

Frjáls en samt í fjötrum

Unnur Freyja Víðisdóttir skrifar

Við eigum mörg í afar eitruðu og meðvirku sambandi við snjallsímana okkar, og að týna þessum nútímatæknimaka okkar er svolítið eins og að lenda í skyndlegum en um leið frelsandi sambandsslitum.

Nýlega stóð ég í slíkum sambandsslitum og það tveimur dögum fyrir langþráða ferð til útlanda. Síminn minn, sem hafði fram að þessu verið ágætis félagsskapur og trausturaðstoðarmaður í daglegu lífi mínu, hvarf eitthvert út í kosmósið og skildi mig eftir í hringiðu tilfinninga sem minntu óneitanlega á eftirmála stormasamra sambandsslita. Til að bæta gráu ofan á svart ákvað veskið mitt líka að fara í feluleik. Á þessum tímapunkti var mér farið að líða eins og ég væri stödd í skets í lélegri grínmynd og gat því ekki annað en hlegið að eigin óförum. Það eina sem ég átti eftir að tapa: kúlinu.

Ekki lengur þræll stafræns drottnara míns, eða hvað?

Aðskilnaðarkvíðinn sem ég fann í fyrstu var furðulegur tilfinningakokteill. Að losna undan áreitinu sem fylgir stöðugum tilkynningum úr símanum var eins og að losna úr klóm stjórnsams maka. Ég var laus við endalausar kröfur um athygli, tilkynningum sem stýrðu því hvernig mér leið, hvernig ég hugsaði og hegðaði mér. Ég var ekki lengur þræll stafræns drottnara míns.

En var ég raunverulega frjáls? Eftir því sem tíminn leið og rykið af sambandsslitunum settist fóru að renna á mig tvær grímur. Allt í einu áttaði ég mig á því að það var engin leið fyrir mig að ná í annað fólk og engin leið fyrir það að ná í mig. Ég gat alveg eins verið strandaglópur á eyðieyju með engu símsambandi, einskonar Robinson Crusoe nútímans. Talandi um að finnast maður einangraður á stafrænni öld!

Svo eru það praktísku afleiðingar þess að vera símalaus. Enginn snjallsími þýddi engin rafræn skilríki og engar snertilausar greiðslur. Þar sem mér hafði líka tekist að týna veskinu mínu hafði ég enga leið til að kaupa nauðsynjavörur fyrir heimilið eða eldsneyti á bílinn, hvað þá nýjan síma.

Það sem stakk mest var tilhugsunin um einhverskonar neyðartilfelli. Hvað ef eitthvað hræðilegt kemur fyrir fólkið mitt á meðan ég er fjarri öðru fólki og þeirra símum? Þá er engin leið að ná í mig til að tilkynna mér það. Hvað ef ég lendi sjálf í slysi? Þá er engin leið fyrir mig til að hringja á hjálp. Ég upplifði mig berskjaldaða og hjálparlausa.

Góð áminning um það hversu háð við erum orðin snjallsímunum 

Fátt er þó svo með öllu illt að eigi boði nokkuð gott. Þessi sambandsslit voru nefnilega góð áminning um það hversu háð við erum orðin snjallsímunum. Að týna þeim, þótt það sé bara í stuttan tíma, leiðir oft í ljós hversu fín línan er á milli þægindanna sem þeim fylgja og hve mikla stjórn þeir hafa yfir daglegu lífi okkar. Hvernig þeir veita okkur ákveðið frelsi en um leið festa okkur í fjötrum.

Að lokum rataði ég í fangið á eldri og myndarlegri síma sem var áður í eigu elskulegrar tengdamóður minna. Heppilegt fyrir mig að hún hafi ákveðið að yngja upp. Þá var ekki annað en að bruna í farsímafyrirtækið mitt og fá þar nýtt símkort. Ekkert mál! Símkortið fékk ég en til að geta virkjað rafrænu skilríkin þurfti ég að geta sýnt fram á físísk skilríki. Var ég með þau? Nei, því ég hafði líka týnst veskinu mínu munið þið? „Ég þarf að fá að koma aftur á morgun með vegabréf“, sagði ég hálfskömmustuleg við starfsmanninn sem afgreiddi mig áður en ég gekk svo út með skottið á milli lappanna og keyrði heim. Þegar heim var komið steig ég út úr bílnum og rak upp stór augu. Mér til mikillar undrunar lá veskið mitt í bílsætinu. Ég hafði semsagt setið á því allan þennan tíma. Stundum sjáum við ekki það sem er beint fyrir framan nefið á okkur - eða í mínu tilfelli undir þjóhnöppunum. Sagan endar því vel, jafnvel þótt gamli síminn minn hafi ekki enn komist í leitirnar. Verandi tengd umheiminum á ný komst ég áhyggjulaus í útlandaferðina með síma og veski í farteskinu.

Reynslan af þessari sjálfskapaðri ringulreið fékk mig til að endurskoða hið óreiðukennda samband sem ég átti við símann minn og hvatti mig til þess að skapa heilbrigðari venjur í kringum notkunina á honum. Hefðum við ekki verið aðskilin hefði ég ekki upplifað frelsið sem felst í því að aftengjast hinum sísuðandi stafræna heimi og finna friðinn í þögninni. Stundum eru sambandsslit nefnilega fullkomið tækifæri til að líta inn á við og finna betra jafnvægi í lífinu, jafnvel þótt þau séu bara tímabundin.

Höfundur er sérfræðingur í miðlalæsi hjá Fjölmiðlanefnd.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×