„Ég fer nú til Herning fullmeðvitaður um að þar bíður mín mikil ábyrgð og stórt verkefni,“ segir Troels Lund Poulsen í færslu á Facebook-síðu sinni frá því í morgun. Landsþing Venstre-manna verður haldið í Herning á Jótlandi seinna í mánuðinum.
Hann verður opinberlega vígður formaður á landsþinginu og hann segist tilhugsunina „bæði gleðja og auðmýkja sig.“
Staðan ekki frábær
Troels tjáir sig frekar um tilvonandi embætti sitt í færslunni og þar segir hann einnig að það væri ekki allt upp á sitt besta hjá Venstre-mönnum.
„Eins og er er Venstre ekki í þeirri stöðu sem við myndum vilja. Það ætlum við að laga og það mun taka tíma - og mikla vinnu. Og við ætlum að gera það saman sem lið,“ skrifar Troels.
Á landsþinginu í næstu viku mun einnig vera kjörinn varaformaður. Núverandi varaformaður Stephanie Lose hyggist halda embætti en hún er með mótframboð. Venstre-menn hafa verið formannslausir síðan Jakob Ellemann-Jensen sagði sig úr flokknum og dönskum stjórnmálum þann 23. október síðastliðinn.