Á dögunum vakti athygli að leikmenn norska kvennalandsliðsins, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, hafi verið meinað að gefa eiginhandaráritanuir og taka sjálfur með áhorfendum og stuðningsmönnum liðsins í aðdraganda HM kvenna sem hefst síðar í mánuðinum.
Reglurnar hafa nú þegar tekið gildi og verða við lýði hið minnsta fram yfir heimsmeistaramótið í handbolta sem hefst í næsta mánuði í Noregi, Danmörku og Svíþjóð en þar á norska landsliðið heimsmeistaratitil að verja.
Með því að takmarka nánd leikmanna við stuðningsmenn vilja Þórir Hergeirsson, og aðrir sem standa að baki norska landsliðinu, lágmarka líkurnar á því að leikmenn liðsins smitist af veirum á borð við nóróveiruna og kórónuveiruna. Þórir, sem og þjálfarateymið allt í kringum liðið, hefur mátt þola ýmsa gagnrýni fyrir þessa ákvörðun og hefur Þórir meðal annars verið kallaður móðursjúkur í norskum fjölmiðlum.
Eftir leik norska karlalandsliðsins í Gulldeildinni gegn Spánverjum síðastliðinn sunnudag, sem norska liðið vann með tveimur mörkum, 31-29, birti liðið þó mynd af sér með stuðningsmönnum liðsins, en Gulldeildin er hluti af undirbúningi norska liðsins fyrir EM sem hefst í janúar.
Norski blaðamaurinn Stig Nygård vakti athygli á myndinni og sagði að „svona byggi maður upp traust og búi til alvöru stuðningsmenn.“
Hins vegar hefur einnig verið bent á að þetta sé algjörlega þveröfugt við þær reglur sem eru við lýði hjá norska kvennalandsliðinu, þrátt fyrir að liðin tvö séu vissulega undir sama sambandinu.
„Norsku strákarnir gera þveröfugt við norsku stelpurnar sem kjósa að einangra sig frá aðdáendum,“ ritar blaðamaðurinn Johan Flinck á X, áður Twitter.
„Áhugavert þar sem þetta er sama sambandið.“