Það er í Hásölum, sem er safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju, sem sýningin fer fram um helgina. Verkin á sýningunni eru mjög fjölbreytt og falleg, allskonar bútasaumur, stór og lítil verk. Þar er til dæmis eitt teppi með 50 húsum en ekkert þeirra er eins. Þá er mjög falleg sjálfsmynd af bútasaumskonu, sem gerði mynd af sjálfri sér.
Um er að ræða jólasýningu Íslenska bútasaumfélagsins þar sem um 300 konur af öllu landinu eru félagsmenn og einn karlmaður að auki.
„Ég er nú búin að vera að sauma í 65 ár. Það er allt og ekkert skemmtilegt við þetta, það er þó fljótara að nefna það sem er leiðinlegt,” segir Pétur Guðmundsson og hlær, stoltur og ánægður með að vera í félaginu.

„Þetta eru bæði hefðbundinn bútasaumur á sýningunni og einnig verk, sem konur hanna algjörlega frá grunni sjálfar,” segir Sigrún Sveinbjörnsdóttir, sem er í sýningarnefnd félagsins.
Og Sigrún segir ótrúlega mikinn bútasaumsáhuga í gangi.
„Já, það eru hópar víðar um land, sem koma saman og sauma saman og þetta er mjög róandi og gefandi og þetta er mikil hugarleikfimi því það þarf alltaf að standast á svo það er mjög gott að halda áfram fram í rauðan dauðann að sauma,” segir Sigrún.
En hvað er skemmtilegast við bútasaum að mati Sigrúnar?
„Það er félagsskapurinn, að kynnast þessu frábæra fólki og bara þessi list. Þeir, sem þurfa að tjá sína list og þeir, sem vilja fá rónna, sem fylgir því að skapa eitthvað og búa til í höndunum eru í bútasaumi.”

Og jólapúði er á sýningunni eftir 11 ára stelpu, sem er mjög fallegur.
„Já, hún fær að fara í kistuna hjá ömmu sinni og saumaði púðann þegar hún var í heimsókn hjá ömmu. Púðinn er glæsilegur hjá henni en hún er með tvo púða hér á sýningunni,” segir Sigrún um leið og hún hvetur alla áhugasama að koma á sýninguna í Hafnarfirði um helgina. Aðgangur er ókeypis.