Íslenska kvennalandsliðið á fyrir höndum tvo heimaleiki í Þjóðadeild Evrópu. Liðið tekur á móti toppliði Danmerkur á föstudaginn og svo mæta Þjóðverjar í heimsókn á þriðjudaginn eftir tæpa viku.
„Ég næ að nýta mér ákveðna eiginleika sem móðir. Þessir eiginleikar hjálpa mér að verða enn betri knattspyrnukona.“
Sandra María Jessen, leikmaður Þór/KA er aftur orðin reglulegur hluti af leikmannahópi íslenska landsliðsins og kemur hún inn í komandi leiki full sjálfstrausts eftir að hafa verið með betri leikmönnum Bestu deildarinnar á síðasta tímabili.
Sandra á að baki 35 A-landsleiki og er fast sæti í íslenska landsliðshópnum á nýjan leik eitthvað sem hún hefur stefnt að því að láta raungerast síðan að hún komst af því að hún ætti von á sínu fyrsta barni árið 2021
„Til þess er maður að leggja þetta á sig. Maður vill vera í landsliðinu og þetta var klárlega markmiðið hjá mér persónulega frá því að ég komst að því að ég væri ólétt. Fyrir mig að vera mætt hingað aftur er náttúrulega bara stór persónulegur sigur. Þetta er góður hópur sem ég kem inn í, mikið af flottum stelpum og rosalega gaman að taka þátt í þessu öllu.“
Móðurhlutverkið hefur haft gífurlega jákvæð áhrif á þau verkefni sem Sandra María tekst á við á sínum fótboltaferli.
„Ég næ að nýta mér ákveðna eiginleika sem móðir. Þessir eiginleikar hjálpa mér að verða enn betri knattspyrnukona. Ég byrjaði rosalega ung að spila fyrir íslenska landsliðið á sínum tíma og upplifði mig þá alltaf stressaða og óörugga með sjálfa mig í landsliðsverkefnunum.
Mér finnst móðurhlutverkið hafa hjálpað mér í því að vera rólegri, taka því bara sem kemur. Það er ekki allt í manns höndum, maður gerir bara það sem maður getur. Þú getur ekki gert meira en það. Mér finnst ég ná að nýta einhverja eiginleika af því til þess að gera mig að betri leikmanni og hjálpa liðinu meira.“