Fótbolti

Al­gjört grí­samark hjá Gri­ezmann sem færist nær marka­meti At­letico

Siggeir Ævarsson skrifar
Antoine Griezmann hefur heldur betur verið á skotskónum
Antoine Griezmann hefur heldur betur verið á skotskónum Vísir/Getty

Atletico Madrid vann sinn fimmta deildarleik í dag þegar liðið lagði Celta Vigo örugglega á útivelli 0-3. Antoine Griezmann skoraði öll þrjú mörk liðsins en annað mark hans var sannkallað grísamark.

Heimanenn í Celta léku manni færri megnið af leiknum en markvörður þeirra, Ivan Villar, fékk rautt spjald á 25. mínútu. Griezmann skoraði úr vítaspyrnunni og kom sínum mönnum svo í 0-2 á 64. mínútu með ótrúlegu marki en hann rann til í teignum þegar hann sparkaði í boltann og virtist hafa ætlað að gefa sendingu fyrir.

Grizemann fullkomnaði svo þrennuna á 70. mínútu og var svo skipt út af skömmu seinna og lauk leik með frábæra tölfræði. Þrjú skot á markið og þrjú mörk.

Með þessum mörkum færist Grizemann, sem er 32 ára, nær því að verða markahæsti leikmaður Atletico í sögu spænsku úrvalsdeildarinnar. Hann er kominn með 119 deildarmörk og vantar aðeins fjögur enn til að jafna met Luis Aragonés sem lagði skóna á hilluna 1974. 

Grizemann hefur alls skorað 165 mörk fyrir Atletico í öllum keppnum og er markahæsti leikmaður í sögu liðsins sé sá mælikvarði notaður, með ellefu marka forskot á Aragonés. Næstu menn í röðinni á báðum listum eru allir hættir í fótbolta svo að það verður að teljast líklegt að Grizemann haldi metinu í ófá ár enn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×