Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Mjölni en Beka er sennilega einn reynslumesti hnefaleikamaður landsins. Hann hefur æft hnefaleika frá barnsaldri og á að baki á fimmta tug bardaga á sínum ferli.
Auk þess hefur hann unnið fjölda titla í heimalandi sínu, Georgíu. Þar á meðal hefur hann í tvígang orðið georgískur meistari sem og bikarmeistari en hnefaleikar eiga sér langa og ríka sögu í Georgíu.
Þá hefur Beka bæði æft og keppt víða erlendis. Meðal annars var hann valinn til þátttöku í æfingabúðum með heimsliðinu svokallaða þar sem að hann æfði undir handleiðslu heimsklassa þjálfara.
Beka tekur við sem yfirþjálfari hnefaleika í Mjölni og Æsi af Vilhjálmi Hernandez sem hefur flutt erlendis.
Vilhjálmur mun þó, eftir því sem fram kemur í fréttatilkynningu frá Mjölni, ekki segja skilið við hnefaleika á Íslandi. Hann verður áfram stjórnarmaður í Æsi.