Kane og Rashford skutu Englendingum á EM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Harry Kane og Marcus Rashford sáu um markaskorun Englendinga í kvöld.
Harry Kane og Marcus Rashford sáu um markaskorun Englendinga í kvöld. Richard Heathcote/Getty Images

Englendingar eru búnir að tryggja sér farseðilinn á EM 2024 með 3-1 sigri gegn Ítölum á Wembley í kvöld.

Fyrir leikinn var ljóst að enska liðinu nægði jafntefli til að tryggja sér sæti á EM og því var nokkuð mikið undir í þessum stórleik kvöldsins, þrátt fyrir að bæði lið eigi enn eftir að leika tvo leiki í C-riðli undankeppninnar.

Það voru þó Ítalir sem tóku forystuna með marki frá Gianluca Scamacca eftir stoðsendingu frá Giovanni Di Lorenzo strax á 15. mínútu.

Tæpum 15 mínútum síðar fengu Englendingar þó vítaspyrnu er áðurnefndur Di Lorenzo braut á Jude Bellingham innan vítateigs. Fyrirliðinn Harry Kane fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi framhjá Gianluigi Donnarumma í markinu og staðan var því jöfn í hálfleik, 1-1.

Marcus Rashford kom Englendingum svo í forystu með marki á 57. mínútu eftir stoðsendingu frá Bellingham áður en Harry Kane gulltryggði sigurinn með hnitmiðaðri afgreiðslu tuttugu mínútum síðar.

Niðurstaðan því 3-1 sigur Englendinga sem eru nú búnir að tryggja sér farseðilinn á EM í Þýskalandi næsta sumar. Enska liðið er með 16 stig á topi C-riðils eftir sex leiki, sex stigum meira en Ítalir sem sitja í þriðja sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira