Innlent

Fjöl­mennt á sam­stöðu­fundi með palestínsku þjóðinni

Bjarki Sigurðsson og Lovísa Arnardóttir skrifa
Börn og fullorðnir sýndu samstöðu á fundinum og höfðu skilaboð til íslenskra ráðamanna á skiltum. 
Börn og fullorðnir sýndu samstöðu á fundinum og höfðu skilaboð til íslenskra ráðamanna á skiltum.  Vísir/Steingrímur Dúi

Fjölmennur samstöðufundur fór fram á Austurvelli seinni partinn í dag. Þar kom saman fólk sem vildi sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni og fordæma stríðsglæpi. 

Boðað var til fundarins í dag en hann var skipulagður af nokkrum félagasamtökum. Það eru Andóf, BDS Ísland, Solaris, Refugees in Iceland og No Borders. 

Fjölmennt var á Austurvelli í dag. Vísir/Steingrímur Dúi

„Ekki í okkar nafni! Við stöndum með palestínsku þjóðinni og fordæmum þá stríðsglæpi sem framdir eru af ísraelskum stjórnvöldum og boðum því til mótmæla við Austurvöll,“ sagði í fundarboðinu.

Börn og fullorðnir sýndu samstöðu. Vísir/Steingrímur Dúi

Fréttamaður ræddi við fólk á Austurveli sem ýmist sagðist hrætt eða reitt. Einhverjir sögðust eiga vini og ættingja í Palestínu sem þau óttuðust um. 

„Það var fyrst og fremst að segja við okkar fólk í Palestínu: „Þið eruð ekki ein og við styðjum við þá alla leið“ og seinni skilaboðin til ríkisstjórnarinnar á Íslandi um að girða sig í brók og styðja réttan málstað,“ sagði Qussay Odeh um tilefni fundarins. 

Minnst 1.055 Palestínumenn hafa verið drepnir og 5.000 særst í stríðinu sem braust út í Ísrael og Palestínu á laugardag. Þá hafa minnst 1.200 Ísraelsmenn verið drepnir. Þetta er fimmti dagur stríðs á svæðinu og virðist það nú vera að breiðast út til nágrannalandanna.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í vaktinni hér fyrir neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×