Fram kemur að bólusett verði samtímis við inflúensu og Covid-19 á öllum heilsugæslustöðvum. Hægt verður að velja um að fá annað hvort eða bæði bóluefnin í sömu heimsókn.
Þó kemur fram að hægt sé að fá bóluefni við Covid-19 strax, en bóluefni við inflúensu verður ekki tilbúið fyrr en 18. október.
Þeir áhættuhópar sem verða í forgangi eru: allir einstaklingar sextíu ára og eldri, börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, offitu, sykursýki, illkynja sjúkdómum eða eru ónæmisbæld af völdum lyfja eða sjúkdóma, barnshafandi konur, og heilbrigðisstarfsfólk sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
Til þess að fara í bólusetningu hjá heilsugæslunni þarf að bóka tíma. Það er hægt í gegnum „mínar síður“ á vef heilsuveru, eða með símtali á heilsugæslustöð.
Fram kemur að bólusetning við Covid-19 og inflúensu er fólki í forgangshópum að kostnaðarlausu. Þá er fólk sem ætlar í bólusetningu minnt á að mæta í stuttermabol.