Samninganefnd Eflingar í síðustu kjaraviðræðum var sú stærsta sem hefur verið mynduð og sú nýja gefur lítið eftir en í henni sitja áttatíu og fimm félagsmenn. Nefndin fundaði í fyrsta sinn í gærkvöldI og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður segir hana samanstanda af Eflingarfólki í fjölbreyttum störfum.
„Við erum auðvitað bara glöð og ánægð að sjá að fólk vill sannarlega taka þátt í því að móta kröfugerð og fara í kjarasamninga fyrir sitt félag,“ segir Sólveig Anna.

Samningur Eflingar við Samtök atvinnulífsins rennur út þann 31. janúar.
„Ég mun núna strax eftir helgi senda erindi til Samtaka atvinnulífsins og óska eftir því að þau undirriti sem allra fyrst viðræðuáætlun við okkur svo við getum byrjað samtalið.“
Óhætt er að segja að síðustu viðræður hafi gengið brösulega en þáverandi ríkissáttasemjari steig til hliðar í deilunni eftir að hafa lagt fram umdeilda miðlunartillögu sem rataði fyrir dómstóla. Nýskipaður ríkissáttasemjari lagði síðar fram aðra miðlunartillögu sem var að lokum samþykkt.
Sólveig vonar að þessar viðræður þróist á annan hátt og að félög innan Alþýðusambandsins geti einnig sameinast um samninga í þágu tekjulágra.
„Ég vona líka að Alþýðusambandið geti líka sameinast um það að sækja fram á ríkið með kröfur um að lífskjörum fólks sem þjáist á leigumarkaði verði lyft upp. Svo vona ég auðvitað að Samtök atvinnulífsins komi fram með öðrum hætti og hef fulla trú á að það gerist.“
Sigríður Margrét Oddsdóttir mun nú í fyrsta sinn koma að viðræðunum fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins en Halldór Benjamín Þorbergsson lét af störfum í vor. Sólveig kveðst ánægð með mannabreytingar hjá ríkissáttasemjara og samtökunum.
„Ég er afskaplega glöð með að sjá ný andlit á báðum þessum stöðum,“ segir Sólveig.
Efling muni fara fram á krónutöluhækkanir og langtímasamning.
„Og við setjum fram kröfu um að stjórnvöld bregðist við þeirri húsnæðiskrísu sem er að rústa lífi félagsfólks Eflingar á hverjum degi.“