Aron Guðmundsson skrifar frá Tel Aviv, Ísrael.
Um er að ræða stóra stund fyrir íslenskan fótbolta en þetta verður fyrsti leikur íslensks karlaliðs í riðlakeppni í Evrópu en auk Blika og Maccabi Tel Aviv eru belgíska liðið Gent og úkraínska liðið Zorya Luhansk einnig í B-riðlinum.
Fyrirfram má reikna með afar krefjandi leik fyrir Blika sem hefur fatast flugið undanfarið heima fyrir í Bestu deildinni, því þó að ísraelska deildin sé ekki með hæst skrifuðu deildum Evrópuboltans er þar að finna lið með ríka sögu, lið sem hafa áður gert sig gildandi í Evrópu.

Hitinn í Tel Aviv þessa dagana er mikill og nær óbærilegur fyrir Íslending sem var farinn að gíra sig í íslenska haustið, slagveðrið sem því fylgir og virkaði það á mann sem kærkomin tilbreyting eftir allt of góðan seinni part sumars.

Nei, nei Tel Aviv heilsar með sínum 30 gráðum og steikjandi sól og maður hugsar til leikmanna Breiðabliks sem þurfa að puða verulega til þess að krækja í úrslit hér á fimmtudagskvöld.
Leikur Breiðabliks við heimamenn mun hefjast klukkan tíu á fimmtudagskvöld að staðartíma en þó svo að sólin verði sest mun hitinn ekki hafa lækkað mikið hér í Tel Aviv. Hann mun standa í um og yfir 27 gráðum.

Langt ferðalag að baki
Blikar mættu seint til Tel Aviv í gærkvöldi eftir morgunflug frá Keflavík, með millilendingu á Heathrow flugvelli í Lundúnum. Eftir stutt stopp í Lundúnum tók við rúmlega fjögurra klukkustunda flug til Tel Aviv og var hersingin því mætt hingað upp úr klukkan miðnætti að staðartíma.
Boðað hefur blaðamannafunda seinna í dag þar sem Robbie Keane, þjálfari Maccabi Tel Aviv og fyrrum markahrókur í ensku úrvalsdeildinni, annars vegar og Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks hins vegar munu sitja fyrir svörum.

Í kjölfarið munu Blikar æfa á keppnisvelli morgundagsins Bloomfield leikvanginum, sem tekur tæplega 30 þúsund manns í sæti, og skerpa á hlutunum fyrir leikdaginn sjálfan.
Leikur Maccabi Tel Aviv og Breiðabliks hefst klukkan sjö annað kvöld og verður sýndur í beinni útsendingu á Vodafone Sport. Við verðum á staðnum og færum ykkur allt það helsta frá Tel Aviv.