Lyfið verður ekki fáanlegt fyrr en við lok næstu viku, en samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun verður það að öllum líkindum fáanlegt þann 22. september.
Lyfjastofnun varaði við skortinum í byrjun júlí og kom fram í tilkynningu þeirra að aukin eftirspurn hafi valdið því að litlar birgðir væru á landinu, og víðar. Þá kom fram að möguleiki væri á að skorturinn myndi vera viðvarandi út árið en það hefur nú breyst.
Lyfið er afar vinsælt í megrunarskyni. Lyfið er til í þremur styrkleikaflokkum og inniheldur virka efnið semaglútíð. Lyfið er samþykkt til notkunar hjá fullorðnum með ófullnægjandi stjórn á sykursýki af tegund 2 sem viðbót við mataræði og hreyfingu.
Skorturinn sem nú er nær til allra styrkleika lyfsins. Samkvæmt svari Lyfjastofnunar til fréttastofu er ekki til samheitalyf en sama virka efni er til á öðru lyfjaformi, í töflum. Það lyf heitir Rybelsus.
Þá kemur fram í svari þeirra að önnur blóðsykurslækkandi lyf séu til sem hægt sé að nota en að mat á breytingu einstaklingsmiðaðrar meðferðar verði að fara fram hjá lækni.
Þegar varað var við lyfjaskortinum voru settar saman leiðbeiningar og ráð til að bregðast við lyfjaskortinum af Landspítalanum og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fyrir lækna, apótek og notendur sem hægt er að skoða hér.