Það var þann 20. júní árið 1997 sem Lima lék sinn fyrsta leik fyrir A-landslið Andorra. Síðan þá hefur hann leikið 136 leiki fyrir þjóð sína og skorað ellefu mörk. Hann er bæði leikja- og markahæsti leikmaður Andorra.
Síðasti leikur hans með landsliðinu átti sér stað í ger þegar að Andorra tapaði 3-0 fyrir Sviss í undankeppni EM 2024.
NO WORDS #andorra #suisse pic.twitter.com/M8S3tymoGN
— Ildefons Lima Solà (@ildelima6) September 12, 2023
Lima var hylltur af áhorfendum í Sviss með standandi lófaklappi er hann yfirgaf völlinn í síðasta skipti sem landsliðsmaður Andorra og fékk hann meðal annars kveðju frá Gianni Infantino, forseta FIFA eftir leik.
Hægt er að flokka þennan reynslumikla leikmann sem Íslandsvin. Lima lék meðal annars leik Andorra og Íslands í undankeppni EM 2000, þann 22. mars 1999. Íslendingar unnu leikinn, 0-2, með mörkum Eyjólfs Sverrissonar og Steinars Adolfssonar. Eftir leikinn fékk hann treyju Rúnars Kristinssonar (númer 6), leikjahæsta landsliðsmanns Íslands frá upphafi.
Hann var síðan aftur í liði Andorra sem mætti íslenska landsliðinu í undankeppni EM 2020, leik sem endaði með 2-0 sigri Íslands. Eftir leikinn bætti hann treyju Arons Einars Gunnarssonar (númer 17) í safn sitt. Hann fékk því treyjur frá tveimur af bestu miðjumönnum í sögu íslenska landsliðsins með 20 ára millibili.
Lima er aðeins annar tveggja evrópskra leikmanna sem hafa leikið landsleik á fjórum mismunandi áratugum. Hinn er Finninn Jari Litmanen.